ESB Já, takk!

Ég datt inn á vef Heimsýnar um daginn. Þetta eru að mínu mati svolítið skrítin samtök. Skrítin vegna þess að þarna virðast vera saman í einni sæng annars vegar harðir andstæðinga heimsvæðingar og svo hins vegar gallharðir íslenskir íhaldsmenn og fulltrúar afturhaldsamra sérhagsmuna. Það eina sem sameinar þennan hóp er andúð á hinu illa Evrópusambandi. Sem staðfestist í dag þegar fréttist af því að þau hefðu ákveðið að fá til liðs við sig andstæðinga ESB í Noregi.

Oft og iðulega les maður fullyrðingar frá þeim sem þarna starfa um það sem miður mun fara ef okkur auðnast að komast inn í sambandið. Þarna er til að mynda list 12 atriða sem þau nefna sem ástæður fyrir því að við ættum að hafna aðild.

Ég sakna þess að hér starfa ekki enn samtök okkar hina sem ekki standa á ystu jöðrum í stjórnmálunum (eða erum varðhundar fámennra hagsmunasamtaka) og teljum okkur mun betur borgið innan Evrópusambandsins en utan þess. Svo mér datt í hug að setja niður 10 góðar ástæður fyrir því að sækja um aðild.

1. Áhrif Íslands á alþjóðavísu margfaldast.

Hafi það eitthvað farið á milli mála, þá er vægi Íslands með 300.000 íbúa út á miðju norður Atlantshafi mjög nálægt því ekki neitt á alþjóðavísu. Þetta kom berlega í ljós við hrunið. Sömuleiðis er alveg ljóst að þegar kemur að því að sækja mál á hinum alþjóðlega vettvangi er stór munur að vera hluti af ESB eða eitt lítið landið sem fátt hefur sér til frægðar unnið annað en koma heilu bankakerfi á hliðina. Það litla traust sem til okkar var borið, sú ímynd að hér væri dugleg og heiðarleg þjóð. Var jörðuð af okkur sjálfum. Áhrif ESB eru hins vegar gríðarleg. Sú staðreynd að við, sem þjóð innan ESB, getum haft áhrif á þessi samtök evrópskra lýðræðisþjóða og fengið þau til að tala máli okkar á alþjóðavísu þýðir einfaldlega að áhrif okkar margfaldast.

2. Við tökum þátt í alþjóðlegu samstarfi á jafnréttisgrunni með lýðræðisþjóðum Evrópu.

Þær þjóðir sem starfa innan ESB gera það á jafnréttisgrundvelli. Það er tekið jafn mikið tillit til skoðana allra þeirra landa sem þarna eru inni. Það myndi líka koma þeim þjóðum sem starfa innan ESB og íbúum þeirra verulega á óvart að þær hefðu þurkast út. Einfaldast er að benda á að öll þessi ríki halda úti þingum, stjórnum, dómstólum, hafa fána, þjóðsöng og flest allt annað það sem einkennir þjóðir. Það kemur þó ekki í veg fyrir að þær sjái sér hag í því að starfa saman á þeim sviðum þar sem samstarf skilar betri árangri en að standa á eigin fótum.

3. Smáríki eru sterkari innan en utan Evrópusambandsins.

Ein af stóru ástæðunum fyrir því að Evrópusambandið var stofnað var einmitt til þess að koma í veg fyrir að ein þjóð gæti neitt aflsmunar í samskiptum sínum við aðra. Með því að setja upp sameiginlegar stofnanir og veita málum í sameiginlegan og óháðan farveg þar sem allir sem að málinu koma hafa nákvæmlega jafnmikil áhrif á niðurstöðuna. Því miður höfum við ekki aðgang að slíku í dag.

4. Það er styttra frá Brussel en Washington eða New York

Það er óumdeilt að Ísland er hluti af Evrópu. Menningar og landfræðilega erum við hluti af Evrópu. En sumir telja að okkur sé betur komið með því að leita annað um samstarf. Sumir vilja að við sækjum um aðild að NAFTA (North American Free Trade Association) þar sem þungamiðjan er í Washington DC. Ekki þykir mér það freistandi. Aðrir hafa horft fast til Wall Street sem fyrirmyndar um góða siði. Hrunið hefur sýnt okkur og sannað að betur fer á því að horfa í aðrar átti. Hafi Íslendingar einhvern tíma átt sér málssvara í Bandaríkjunum, þá ætti öllum að vera orðið ljóst að þar í landi er áhugi á Íslandi svo lítill að ári eftir kosningar hefur Obama ekki einu sinni skipað hér sendiherra.


5. Atvinnuuppbygging er eitt af forgangsatriðum sambandsins

Við erum að fást við atvinnuleysi hér á Íslandi í fyrsta skipti í mörg ár. Sú hugmynd að hér færi vel á því að byggja upp fáar stoðir til þess að halda uppi atvinnulífi reyndist vera röng. Sú hugmynd að hér færi vel á því að byggja upp margar stoðir með fjölbreyttu atvinnulífi. Er nákvæmlega í samræmi við stefnu Evrópusambandsins. Nýsköpun hér á landi krefst þess að hér verði náð stöðugleika sem ekki fæst nema í gegnum aðild að Evrópusambandinu.

6. Núverandi peningamálastefna beið skipbrot

Það er grátlegt til þess að hugsa að fjölmargar íslenskar fjölskyldur eru nú tæknilega gjaldþrota vegna þess gríðarlega skipbrots sem núverandi peningamálastefna kom okkur í. Það hefur nefnilega komið endanlega í ljós að það er takmörkunum háð hvort ríki getur haldið úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Vegna þeirra miklu viðskipta sem við eigum við ríki Evrópu liggur beinast við að taka upp Evru. Slíkt gerist ekki án aðildar að Evrópusambandinu. Það er beinlínis broslegt að þeir sömu og telja engar líkur til þess að hægt sé að semja um Evrópusambandið um stjórnun fiskveiða við Ísland, telja að það sé raunhæft að leita samninga við ESB um að taka upp Evru án þess að ganga í ESB.

7. Við höldum okkar fiskveiðikvóta

Samkvæmt núverandi kerfi Evrópusambandsins þá gildir sú regla að kvóta er úthlutað á grundvelli veiðireynslu. Reyndar er það gert í Brussel en fyrir liggur að Evrópusambandið ætlar sér að endurskoða með hvaða hætti þetta yrði gert, með það fyrir augum að úthlutun gæti farið fram í hverju aðildarríki án afskipta frá Brussel, nema ef um er að ræða flökkustofna. 80% of fiskistofnum hér við land eru staðbundnir, svo þetta myndi henta okkur afar vel. Ef við værum fullgildir meðlimir í Evrópusambandinu gætum við haft áhrif á það hvernig þessum málum yrði skipað innan sambandsins. Raunar er það svo að það eru þjóðirnar í ESB sem gera tillögur um hvernig kvóta er úthlutað. Þó formlega gerist það síðan í Brussel.

8. ESB er friðarbandalag

Okkur þykir ekki tiltökumál að halda ekki úti eigin her. Þó flest fullvalda ríki telji slíkt eitt af því sem gerir ríki fullvalda. Sé að það hafi burði til að tryggja eigin landamæri. Ríki gera það reyndar oft í samstarfi hvert við annað og Atlantshafsbandalagið er dæmi um slíkt. Evrópusambandið er allt annars eðlis. Það var stofnað til að tryggja frið í Evrópu og þar eru ríki sem sum hver standa utan allra hernaðarbandalaga. Fyrir þá sem þekkja sögu Evrópu þá er það stórkostlegt afrek að hafa skapað frið í álfunni. Frá upphafi hafa þjóðir innan ESB lagt á það áherslu að fylgja þjóðarrétti sem einmitt er grundvöllur friðsamlegra samskipta þjóða í milli. Fyrir vopnlausa þjóð eins og Íslendinga er því aðild að Evrópusambandinu mikilvægur þáttur í því að tryggja frið í álfunni og tryggja þar með öryggi sitt.

9. Verðlag á sumum vörum myndi snarlækka við inngöngu í ESB

Fámenn hagsmunasamtök íslenskra framleiðenda telja íslenskum neytendum trú um að hagi þeirra sé betur borgið með því að við séum fátækari en við ættum að vera. Raunar er það til muna orðum aukið að íslensk framleiðsla muni leggjast af við innigöngu í Evrópusambandið. En það er ljóst að hagur íslenskra neytenda mun batna við inngöngu. Neytendavernd er einn af hornsteinum Evrópusambandsins og samkeppniseftirlit er þar öflugt. Þekki ég engan sem heldur því fram að Ísland geti brauðfætt þá sem hér búa. Ísland hentar einfaldlega ekki vel til landbúnaðar og sú staðreynd mun ekki breytast nema með verulegri hlýnun jarðar. Leyfum öðrum að njóta sín á þessu sviði.

10. Íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnanir myndu njóta aðhalds og stuðnings frá stofnunum ESB.

Síðasta og jafnframt mikilvægasta ástæða þess að ég tel að við eigum að sækja um aðild. Er einmitt sú að mörgum þeim sem nú sitja í valdastöðum stendur mikil stuggur af Evrópusambandinu. Því með aðild myndum við njóta þess að valdastofnanir hér myndu hafa aðhald frá stofnunum ESB. Því sú gríðarlega spilling sem hér hefur viðgengist í skjóli kunningja og vinaveldis er líklega mesta mein Íslands.

Ummæli

Vinsælar færslur