Fjallaferðir hafnar

Það er óhætt að fullyrða að nú sé tímabil gönguferða gengið í garð (stóðst bara frestinguna á þessu orðalagi). Við byrjum eiginlega strax um páskaleitið með gönguferð upp á Helgafell (bæjarfjall stór Hafnarfjarðarsvæðisins) og strax í kjölfarið var maður farinn að tala um að koma sér upp á Esju.

Eins og oftast á Íslandi þá heldur maður alltaf að vorið sé komið rétt í byrjun mars, en oftast kemst maður síðan að því að það er eiginlega ekki fyrr en í maí sem í rauninni er farið að hitna og verða sæmilega ferðafært. En við höfum verið dugleg við að koma okkur upp útivistarbúnaði og maður getur ekki verið þekktur fyrir annað en að nota þetta. Hef reyndar alveg óskaplega gaman af þessum gönguferðum. Getur verið svona smá erfitt að komast af stað stundum, en alltaf þegar af stað er komið, þá léttist lundin.

Þetta sambland af Endorphin og Dopamin kikki sem maður fær út úr þessum ferðum er svo magnað að maður vil helst ekki vera að gera annað orðið á sumrin en rölta úti í náttúrinni. Ísland er líka svo skemmtilegt gönguland. Ekki of heit, ekki nein vilt hættuleg dýr og skordýr svo oftast ekki mjög skænuhætt. Svona kannski fyrir utan einstaka mýbit og svo getur verið gott að hafa varan á geitungunum.

Það er líka kostur fyrir ofnæmisfólk eins og mig að íslenska hálendið eru kjörlendi fyrir ofnæmisfólk. Ekkert of mikið af gróðri og þess vegna eiginlega hvíld fólgin í því að ganga á hálendinu. Ekki svo að skilja að maður þurfi eitthvað endilega að ganga á hálendinu eingöngu. En það felst í því óskapleg hugarsvölun að heimsækja heiðar og fjöll á tveimur jafnfljótum.

Svo er ég líka svo heppinn að hafa kynnst skemmtilegu göngufólki. Við erum svona nokkur sem höfum verið að ganga á fjöll af vinafólkinu, en skemmtilegast var þó eiginlega að kynnast hópnum sem fór með okkur Laugaveginn í fyrra. Góður hópur af góðu fólki og gott að ganga með þeim. En ljóst að göngurnar eiga eftir að verða þó nokkrar í sumar og nú er bara að fylgjast með í gegnum myndasafnið mitt.

Ummæli

Vinsælar færslur